top of page
Fimmti tími

Gott er að hefja tímann á að rifja upp frá síðasta skipti. En í þessum tíma verður haldið áfram að vinna með látbragð og einnig aðeins með spuna. 

Áætlun tímans

Tími: 80 mínútur

​

Markmið: Samvinna, samskipti og þátttaka í spuna með látbragði. 

​

Gögn: Stólar fyrir hvern og einn þátttakenda fyrir mörgæsaleikinn

Mörgæsaleikurinn

Markmið: Samvinna allra úr hópnum til að ná settu markmiði. 
 

Í upphafi er stólum dreift um allt rýmið. Einn stóll fyrir hvern þátttakanda. Hver og einn finnur sér stól og sest, stjórnandinn velur svo einhvern einn til þess að byrja að vera mörgæsin, við það losnar einn stóll. Markmið mörgæsarinnar er að ná lausa sætinu en hópurinn þarf að vinna saman til þess að koma í veg fyrir að mörgæsin nái að setjast. Mörgæsin má ekki hlaupa og þeir sem standa upp mega ekki setjast aftur í sama stól heldur verður sá hinn sami að finna sér nýtt sæti. Ef mörgæsin nær að setjast í auðann stól þá er sá sem er síðastur að setjast orðin mörgæs. Mörgæsin byrjar alltaf á þeim stað í stofunni sem er fjærstur lausa stólnum. 

​

Byggt á: Leikið með listina, Rannveig Björk Þorkelsdóttir 

Síldartorfan

Markmið: Samvinna og rýmisvitund.

​

Hópurinn stendur saman í þéttum hnapp svo að allir snerti alla. Hópurinn á svo að labba saman um rýmið sem ein heild, sá sem stendur fremstur að hverju sinni stjórnar hvert hópurinn fer. En stjórnandinn getur snúið sér í aðra átt og þá tekur sá sem stendur fremstur í þeirri átt við stjórninni. Mikilvægt er að hópurinn hreyfi sig hægt og rólega og renna fótunum áfram í stað þess að taka skref. Stjórnandinn getur einnig notað hendurnar og teygt sig eftir einhverju og þá þurfa allir hinir að gera eins. 

​

Byggt á: Leikið með listina, Rannveig Björk Þorkelsdóttir

Ég er einstök/einstakur

Markmið: Fá hvern og einn til þess að finna einstaka staðreynd um sig og deila með hinum. 

​

Allir standa í hring, einhver einn byrjar að segja: Ég er einstök/einstakur af því að.... og bætir svo staðreynd um sjálfa sig við t.d. ég er einstök af því að ég hef búið í Grafarvogi allt mitt líf. Allir þeir sem hafa líka búið í Grafarvogi allt sitt líf fara þá og mynda einfalda röð fyrir framan manneskjuna sem sagði staðreyndina. Þá þarf aðilinn að finna aðra persónulega staðreynd til þess að reyna losna við alla úr röðinni. Þegar það tekst þá á næsti í hringnum að gera. 

​

Byggt á: Höfundi.

Mæta of seint í skólann - Spuni

Markmið: Fá þátttakendur til þess að nota ímyndunaraflið til þess að spinna sögu, leika með hana með látbragði. Reynir á samvinnu hópsins.

​

Hlutverk spunans eru þrjú, stjórnandinn fer alltaf í hlutverk kennarans. Einn sjálfboðaliði fer fram og á að koma inn í stofuna eins og hann/hún sé að mæta seint í skólann. Allir hinir búa til sögu á meðan sjálboðaliðinn er frammi, af hverju þessi einstaklingur er að mæta seint í skólann. Þegar aðilinn kemur svo inn í stofuna aftur og stjórnandinn í hlutverki kennara fer að spyrja hann/hana spurninga af hverju hann/hún er sein þá þurfa hinir að leika söguna sem þeir bjuggu til með látbragði og manneskjan þarf að reyna átta sig á sögunni og segja hana við kennarann án þess að hika. Þeir sem eru að leika gera það allir í einu og mega alls ekki nota nein hljóð eða neitt til þess að auðvelda sér. Atburðarrásin getur verið snúin en það gerir spunann ennþá skemmtilegri. Til þess að rugla þann sem kemur inn og reynir að átta sig á sögunni af hverju hann/hún er að mæta seint í skólann þá spyr kennarinn ótal spurninga varðandi svörin sem aðilinn gefur vegna seinkomunar. Það getur því verið áskorun að halda athygli í samtalinu við kennarann, horfa á látbragðið hjá öllum hinum og reyna átta sig á sögunni allt á sama tíma. Þegar sagan er búin þá er farið yfir raunverulegu söguna sem var búin til og þá kemur í ljós hversu vel tókst til hjá þeim sem fór fram. 

Þessi spuni er ótrúlega skemmtilegur og vinsæll, því má gefa honum góðan tíma og leyfa öllum sem vilja að vera sjálfboðaliði og fara fram. 

​

Byggt á:Munnleg heimild, Rannveig Björk Þorkelsdóttir

Ígrundun 

Í lok tímans er gott að ígrunda aðeins það sem fram fór í tímanum. Reyna að fá þátttakendur til þess að átta sig á hvaða nám átti sér stað með verkefnum tímans og á hvaða þætti verkefnin reyndu. Gott er að fá hvern og einn til þess að skrifa niður nokkrar línur í símann sinn t.d. í Notes, því að eftir síðasta tímann draga þátttakendur saman reynslu þeirra af hópastarfinu.

bottom of page