top of page
Fjórði tími 

Gott er að hefja tímann á því að rifja upp það sem var gert í síðasta tíma. En í þessum tíma er látbragð kynnt fyrir þátttakendum. Ásamt nokkrum samvinnu- og einbeitingaæfingum/leikjum. 

Tími: 80 mínútur

​

Markmið: Vinna með látbragð, líkamstjáningu og samvinnu. 

​

Gögn: Miðar með daglegum athöfnum fyrir látbragðsleik

Áætlun tímans
Zip, Zap, Boing

Markmið: Augnsamband, snerpa, hlutstun og einbeiting. 
 

Leikurinn er góður upphitunarleikur sem hægt er að útfæra á margvíslegan hátt. Einfaldasta útgáfan er svona: Allir þátttakendur standa í hring. Sá sem byrjar gerir hreyfingu með hendinni til hægri í hringnum og segir á sama tíma hátt og skýrt "Zip", næsti lætur ganga áfram til hægri þar til allir í hringnum hafa sent "Zip" á manneskjuna sem stendur á hægri hönd. Þá kemur "Zap" inn í, það gengur alveg eins nema til vinstri. Þegar allir hafa gert handahreyfingu og sagt "Zap" þá bætist við "Boing". Það virkar eins og hálfgerður spegill, þá snýst áttin við. Ef einhver í hringnum segir "Zip" til hægri en manneskjan segir "Boing" í stað þess að halda áfram með "Zip" þá snýst áttin við og sá sem sendi snýr sér þá á vinstri hönd og segir "Zap".

Þegar allir þátttakendur eru orðnir öruggir á þessum hreyfingum er hægt að bæta inn og búa til aðrar hreyfingar og hljóð. 

​

Byggt á: Drama Games + activities, David Farmer

​

Höndin sem ræður

Markmið: Samvinna, rýmisgreind og einbeiting.
 

Tveir og tveir vinna saman. Annar byrjar, sá aðili setur höndina fram í axlahæð og lætur lófan snúa út. Hinn aðlininn á að einblína á að fylgja lófanum meðan hinn hreyfir sig um rýmið og notar það eins vel og hægt er. Aðilinn sem er með lófan út að hreyfa sig þarf að gera það hægt og rólega svo hinn nái að fylgja. Eftir smá stund þá skipta pörin um hlutverk. 

​

Byggt á: Drama Games + activities, David Farmer

Látbragð

​Hér þarf stjórnandi að kynna látbragð fyrir hópnum. Gott er að mynda umræðu og fá hugmyndir frá hópnum hvað felst í látbragði. Þegar látbragð er notað þá notar leikarinn ekki nein orð eða hljóð heldur notar hann líkamstjáningu, svipbrigði  og skýrar hreyfingar svo áhorfandi átti sig á hvað viðkomandi er að gera. 

Athafnir með látbragði

Markmið: Fá nemendur til þess að nota látbragð, nota líkamstjáningu og ýkja hreyfingar.
 

Stjórnandi getur fyrirfram búið til litla miða með allskonar daglegum athöfnum t.d. bursta tennur, klæða sig í föt, leggja á matarborð, hengja upp þvott og svo framvegis. Hver og einn dregur svo miða og leikur athöfnina með látbragði. Hinir horfa á meðan og reyna fylgjast vel með öllum smáatriðum. Er eitthvað sem gleymist hjá þeim sem er að leika látbragðið? Eftir að hann hefur lokið við athöfnina sína þá er gott að ræða með hópnum hvað var vel gert og hvort hreyfingar og tjáningin hafi verið skýr og hvað hefði mátt fara betur. 
 

Byggt á: Leikið með listina, Rannveig Björk Þorkelsdóttir

Ég er að...

Markmið: Virkja ímyndunarafl, fá þátttakendur til þess að nota látbragð.

​

Allir standa í hring, einhver einn byrjar á að gera einhverja hreyfingu með látbragði t.d. að synda. Sá sem stendur á hægri hönd spyr svo aðilann "hvað ertu að gera?" Þá svarar hinn og segist vera gera eitthvað annað en hann er í raun og veru að gera t.d. þá er hann að synda samkvæmt látbragðinu en svo segir hann kannski "ég er að borða". Aðilinn sem stendur þá á vinstri hönd byrjar þá að borða með látbragði og svo heldur hringurinn áfram. Sá sem er á hægri hönd spyr hvað aðilinn sé að gera og hann segir eitthvað annað sem næsti við hliðina á tekur upp. 

​

Byggt á: Höfundi. 

Ígrundun

Í lok tímans er gott að ígrunda aðeins það sem fram fór í tímanum. Reyna að fá þátttakendur til þess að átta sig á hvaða nám átti sér stað með verkefnum tímans og á hvaða þætti verkefnin reyndu. Gott er að fá hvern og einn til þess að skrifa niður nokkrar línur í símann sinn t.d. í Notes, því að eftir síðasta tímann draga þátttakendur saman reynslu þeirra af hópastarfinu.

bottom of page