top of page

Annar tími

Gott er að hefja tímann á því að rifja aðeins upp hvað gert var í síðasta tíma. Segja stuttlega frá markmiðum og verkefnum þessa tíma. 

Markmið: Samvinna, traust og snerting

Tími: 80 mínútur

Gögn: Plakatið úr síðasta tíma með hugtökum og orðum. Leyfa þeim að bæta inn ef þeim dettur fleira í hug. Tússpennar.

​Áætlun tímans

Handaflækja

Markmið: Samskipti, samvinna, finna lausnir og snerting við aðra.

​

Allir þátttakendur standa í þéttum hring og loka augunum, þeir setja hendur út og grípa svo í einhverjar hendur í hringnum þar til allir leiða einhvern annan með báðum höndum. Bannað er að taka í höndina á þeim sem stendur við hliðina á manni sjálfum. Í fyrra skiptið fer einn sjálfboðaliði út úr stofunni á meðan hinir rugla höndunum saman og svo kemur aðilinn sem fór fram aftur inn og reynir að leysa flækjuna.  Í seinna skiptið þá eru  allir í hringnum og taka þátt í flækjunni og leysa hana svo saman. Seinna skiptið gengur yfirleitt betur því þá vinnur hópurinn allur saman að því að leysa flækjuna.

​

Byggt á: Drama Games + activities, David Farmer

Allir í rugl/hópaskipting

Markmið: Skipta nemendum í hópa og auka rýmisvitund.

​

Allir þátttakendur fá fyrirmæli um að labba um rýmið á víð og dreif. Stjórnandi getur látið þau labba um í hlutverki t.d. eins og risi, einhver að læðast, eins og einhver sem er þreyttur og svo framvegis. Stjórnandinn kallar svo allt í einu einhverja ákveðna tölu og hinir hópa sig saman eftir tölunni. Hægt er að gera kannski 3-4 umferðir með því að nota mismunandi hópastærðir en í síðasta skiptinu þá kallar stjórnandinn þá tölu sem hann vill að nemendur séu í, í næsta verkefni.


 Byggt á: Leikið með listina, Rannveig Björk Þorkelsdóttir. 

Að finna breytingu

Markmið: Samvinna milli tveggja einstaklinga, nota ímyndunarafl til þess að stilla sér upp, mynda traust og auka líkamsvitund.

​

Tveir og tveir vinna saman (þeir sem lenntu saman í síðustu æfingu). Annar þeirra byrjar á að stilla sér upp í einhverja stellingu, á meðan snýr hinn sér undan. Þegar manneskjan er tilbúin í stellingu þá snýr hinn sér við, skoðar vel og leggur stellinguna á minnið. Svo snýr hinn sér aftur undan og á meðan þá breytir aðilinn einhverju þrennu við stellinguna, þegar hann er tilbúinn snýr hinn sér aftur við og reynir að finna út hvaða þrennt er öðruvísi en áðan. Næst skipta aðilarnir um hlutverk og gera svo eins.

Byggt á: Leikið með listina, Rannveig Björk Þorkelsdóttir.

Ljónið, ljónatemjarinn og apinn

Markmið: Samvinna liðsins, leikræn tjáning með hljóði og hreyfingu.

​

Í tveimur liðum stilla þátttakendur sér upp í sitthvorum endanum á rýminu. Þeir standa öxl í öxl upp við vegg andspænis hinu liðinu í hinum enda stofunnar. Í leiknum eru þrír karakterar sem allir hafa hljóð og hreyfingu. Ljón vinnur -> Apa, Ljónatemjari vinnur -> Ljónið, Api vinnur -> Ljónatemjara. Í sameiningu ákveða liðin hvað þau ætla að vera, ljón, ljónatemjari eða api. Þegar bæði liðin hafa ákveðið sig telur stjórnandi upp í fjóra og á meðan labba liðin í átt að móti hvort öðru í beinni línu. Á fjórum gera bæði liðin hljóð og hreyfingu þess karakters sem þau völdu. Ef t.d. annað liðið gerði ljón og hitt liðið ljónatemjarann þá vinnur ljónatemjarinn og þau sem eru í því liði reyna þá að klukka hina úr hinu liðinu meðan þau hlaupa til baka á upphafsstaðinn. Ef bæði liðin velja sama karakter þá fara liðin til baka án þess að gera neitt og velja nýjan karakter.
 

Byggt á:Höfundi.

Allir sem einn

Markmið: Einbeiting, samvinna, hlustun og rýmisvitund.

​

Allir dreifa sér vel um rýmið. Hópurinn á reyna labba um rýmið sem ein heild. Ef einhver einn stoppar þá eiga hinir að stoppa líka. Það er enginn einn sem stjórnar hópnum heldur mega allir taka stjórnina og stoppa eða labba af stað á einhverjum tímapunkti.
Markmið: Einbeiting, samvinna, hlustun og rýmisvitund.


Byggt á: Leikið með listina, Rannveig Björk Þorkelsdóttir.
 

Trausthringur

Markmið: Fá alla úr hópnum til þess að mynda traust til hinna í hópnum.

​

Þátttakendur standa þétt saman í hring, einhver einn byrjar á því að stíga inn í miðjan hringinn og loka augunum, aðilinn þarf að standa alveg stífur. Næst lætur hann sig falla í áttina að einhverjum sem grípur og ýtir einstaklingnum rólega í aðra átt. Svona gengur hringurinn áfram þar til manneskjan í miðjunni er farin að finna öryggi í að láta sig falla. Hægt er að stækka hringinn örlítið eftir smá stund en það skiptir miklu máli að allir séu einbeittir og alltaf tilbúnir að taka við þeim sem er í miðjunni.

Byggt á: Drama Games  + activities, David Farmer.

Hróshringur

Markmið: Að fá þátttakendur til þess að hrósa, taka við hrósi frá öðrum og mynda augnsamband.

​

Allir standa í hring og segja eitt hrós til manneskjunnar sem stendur til hægri svo koll af kolli þar til allir eru búnir þá snýst hringurinn við og allir segja hrós til manneskjunnar til vinstri. Muna að benda nemendum á að taka við hrósinu og segja takk áður en þau halda áfram að hrósa næsta.

​

Byggt á: Höfundi.

Ígrundun

Í lok tímans er gott að ígrunda aðeins það sem fram fór í tímanum. Reyna að fá þátttakendur til þess að átta sig á hvaða nám átti sér stað með verkefnum tímans og á hvaða þætti verkefnin reyndu. Gott er að fá hvern og einn til þess að skrifa niður nokkrar línur í símann sinn t.d. í Notes, því að eftir síðasta tímann draga þátttakendur saman reynslu þeirra af hópastarfinu.

bottom of page