top of page
Þriðji tími

Gott er að hefja tímann á því að rifja aðeins upp hvað gert var í síðasta tíma. Segja stuttlega frá markmiðum og verkefnum þessa tíma. 

Næsta verkefni er að fá þátttakendur til að skrifa niður allar tilfinningar sem þeim dettur í hug á karton blað. Eftir að allir hafa skrifað það sem þeim dettur í hug getur stjórnandi bætt við ef honum finnst þörf fyrir. 

Tími: 80 mínútur

​

Markmið: Vinna með tilfinningar og kynna kyrrmyndir

​

Gögn: Plakatið úr fyrri tímum og tússpennar. Auka kartonblað til þess að skrifa niður tilfinningar. 

Áætlun tímans
Einbeitingaleikur með augnsambandi

Markmið: Fá nemendur til að mynda augnsamband, samvinna og einbeiting.

​

Allir þátttakendur standa í hring. Einn byrjar, hann finnur augnsamband við einhvern annan úr hringnum. Þegar aðilarnir tveir hafa náð augnsambandi má sá sem byrjar labba af stað í áttina að hinum aðilanum. En hinn aðilinn þarf að ná augnsambandi við einhvern annan til þess að mega labba af stað til þess að skipta um stað. Svona gengur leikurinn áfram, hægt er að auka hraðann á skiptingunum ef allir ná góðri einbeitingu.
 

Byggt á: Drama Games + activities, David Farmer

Spegillinn

Markmið: Samvinna, vinna með rýmisvitund, augnsamband.

​

Tveir og tveir vinna saman. Aðilarnir standa á móti hvorum öðrum. Annar byrjar að hreyfa sig og hinn eltir eins og spegilmynd hins sem býr til hreyfingarnar. Gott að nefna við þátttakendur að nota rýmið vel. Eftir smá stund þá skipta aðilarnir hlutverkum og sá sem var spegilmyndin verður þá stjórnandinn.

​

Byggt á: Drama Games + activities, David Farmer

Kyrrmyndir

Hér þarf stjórnandi að útskýra hvað kyrrmynd er fyrir þátttakendum áður en lengra er haldið. 

Kyrrmyndir eru ein af kennsluaðferðum leiklistar. Kennsluaðferðin er einfaldasta útfærslan á hlutverkaleik. Kennsluaðferðin hentar á öllum aldursstigum og hægt er að beita henni við allar aðstæður án mikils undirbúnings. Hægt er að líkja kyrrmynd við ljósmynd eða vaxmyndastyttur. Þá búa nemendur til uppstillta mynd í hlutverkum af einhverjum raunverulegum aðstæðum. T.d. fjölskyldumynd sem tekin er við eitthvað ákveðið tilefni. 

Einnig er hægt að láta kyrrmyndir lifna við með því að pikka í einstaklinga í kyrrmyndinni og spyrja spurninga eins og : Hver ert þú?, hvað er að gerast hér?, hvernig líður þér og af hverju? 

​

Heimild: Leiklist í kennslu, Anna Jeppesen og Ása Helga Ragnarsdóttir 

Kyrrmyndir með tilfinningum

Markmið: Fá þátttakendur til þess að tengja kyrrmyndir við tilfinningar út frá sér persónulega

​

Fyrst vinna nemendur í tveggja til þriggja manna hópum, þau velja sér tvær tilfinningar af blaðinu sem þau gerðu í upphafi tímans. Önnur tilfinningin þarf að vera jákvæð, hin þarf að vera neikvæð. Þegar allir hafa ákveðið sig stilla hóparnir sér upp hver fyrir sig í kyrrmynd úr raunverulegum aðstæðum sem þeim dettur í hug út frá annarri tilfinningunni. Stjórnandi labbar á milli og giskar á tilfinninguna hjá hópunum. Næst búa þau til kyrrmynd úr hinni tilfinningunni en bara einn hópur í  einu. Hinir horfa og reyna að giska á tilfinninguna. 

Í síðustu kyrrmyndinni á hver og einn að velja sér tilfinningu af blaðinu sem að sá hinn sami getur tengt við persónulega. Þegar allir hafa ákveðið stilla allir sér upp og stjórnandi labbar á milli og pikkar hvern og einn og spyr: Hvaða tilfinningu ert þú að sýna? Af hverju líður þér svona? 

 

Byggt á: Höfundi

​
 

Tilfinningaveislan

Markmið: Vinna með tilfinningar og taka þátt í spuna.

Einhver einn sjálfboðaliði tekur að sér hlutverk að vera gestgjafi eða afmælisbarn. Hinir koma inn hver af öðrum. Hver og einn kemur inn með tilfinningu sem aðilinn velur sér sjálfur og um leið og gesturinn kemur inn þá smitast allir hinir sem eru komnir inn í veisluna svo sú tilfinning verður ríkjandi þar til næsti gestur bankar.  

Gott er að reyna fá nemendur til þess að koma ekki inn með sömu tilfinningu og er komin. 

​

Byggt á: Leikið með listina, Rannveig Björk Þorkelsdóttir.

Hróshringur

Markmið: Að fá þátttakendur til þess að hrósa, taka við hrósi frá öðrum og mynda augnsamband.

​

Allir standa í hring og segja eitt hrós til manneskjunnar sem stendur til hægri svo koll af kolli þar til allir eru búnir þá snýst hringurinn við og allir segja hrós til manneskjunnar til vinstri. Muna að benda nemendum á að taka við hrósinu og segja takk áður en þau halda áfram að hrósa næsta.

​

Byggt á: Höfundi.

​Ígrundun

Í lok tímans er gott að ígrunda aðeins það sem fram fór í tímanum. Reyna að fá þátttakendur til þess að átta sig á hvaða nám átti sér stað með verkefnum tímans og á hvaða þætti verkefnin reyndu. Gott er að fá hvern og einn til þess að skrifa niður nokkrar línur í símann sinn t.d. í Notes, því að eftir síðasta tímann draga þátttakendur saman reynslu þeirra af hópastarfinu.

bottom of page